Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór?
Er starf þitt ánægjulegt, gagnlegt og gefandi?
Hver stjórnar starfsferlinum þínum?
Eldar í iðrum - áhugi og starfsánægja
Rannsóknin eldar í iðrum beinir sjónum að þróun starfsferils ungs fólks og hófst árið 2006 meðal unglinga í grunn- og framhaldsskólum. Þessi langtímarannsókn sýnir að áhugi, persónuleiki og lífsmarkmið mótast á ungdómsárum, stýra stefnu starfsferils og hafa áhrif á ánægju og árangur í námi og starfi. Unga fólkinu hefur verið fylgt eftir og þau beðin um að taka þátt á fjögurra ára fresti. Þátttakan hefur verið mjög góð og þökkum við kærlega fyrir það. Við leitum nú til sama hóps sem er á fertugsaldri um áframhaldandi þátttöku. Fáar rannsóknir eru til á áhrifum og þróun starfsáhuga á fullorðinsárum þegar flestir hafa komið sér fyrir í starfi og stofnað fjölskyldur. Markmiðið nú er að skoða betur samspil, áhuga, persónuleika og lífsmarkmiða í mótun farsæls starfsferils og afleiðingar fyrir vellíðan í lífi og starfi. Niðurstöðurnar koma fólki á öllum aldri að gagni við að taka stjórn á eigin starfsferli.
Um rannsóknina
Þau sem velja nám og starf eftir áhuga ljúka frekar námi, eru ánægðari í starfi, og hafa jafnvel hærri laun.
Lífsmarkmið endurspegla hvað við viljum fá út úr lífinu byggt á gildum. Þau stýra stefnunni á starfsferli og skerpast fram á fullorðinsár.
Við verðum flest samviskusamari, samvinnuþýðari og víðsýnni með aldrinum og styður það stjórn á starfsferli og farsæld í starfi.
Náms- og starfsráðgjöf
Um er að ræða rannsókn innan náms- og starfsráðgjafar en hún beinist að því að aðstoða fólk á öllum aldri við að taka ákvörðanir um nám og störf.
Betri skilningur á þróun áhuga á fullorðinsárum er mikilvægur fyrir náms- og starfsráðgjöf á síbreytilegum vinnumarkaði og í samfélögum þar sem stjórnvöld leggja áherslu á ævilangt nám og símenntun.
Öllum þátttakendum stendur til boða ókeypis aðstoð við túlka niðurstöður og fá stuðning við þróun starfsferils í Háskóla Íslands eða á netinu hjá Hlín Rafnsdóttur náms- og starfsráðgjafa sem er einnig verkefnastjóri rannsóknarinnar. Til að panta tíma eða fá frekari upplýsingar sendið póst á hlr@hi.is