Hér eru sögur af ólíkri starfsferilsþróun fólks sem hefur fylgt áhuga sínum við val á námi og starfi.
Úr verkfræði í kennslu
Ég lauk meistaranámi í verkfræði frá bandarískum skóla. Eftir það fór ég að vinna hjá stórri verkfræðistofu og tíminn minn þar var nokkuð góður en eftir að ég hóf störf hjá dóttur fyrirtæki verkfræðistofunnar dró úr starfsánægju minni.
Á sama tíma var barnsmóðir mín í mastersnámi þar sem meðal annars var farið í stærðfræðigreiningu. Ég kunni hana nokkuð vel og því var lítil tafla sett upp á vegg heima og ég var með smá kennslu heima. Fannst mér þetta nokkuð gaman og smá áhugi á kennslu kviknaði hjá mér. Ég fór því að forvitnast hvort ég gæti kennt eitthvað meira og skoðaði sjálfboðastarf hjá Rauða krossinum en þar voru sjálfboðaliðar að hjálpa framhaldsskólanemum í stærðfræði. Skráði ég mig í það og stuttu seinna var ég að hitta nemendur og hjálpa þeim í stærðfræði. Þetta passaði vel við mig því ég man eftir því úr háskólanámi að hafa gaman af því að aðstoða bekkjarfélaga mína. Sumum fannst það pirrandi og tímafrekt að þurfa að aðstoða en ég hafði alltaf gaman af því. Ég vann sem sjálfboðaliði í nokkra mánuði og á sama tíma minnkaði starfsánægja mín.
Ákvað ég þá að fara í diplómanám í kennslufræðum í eina önn til að fá réttindi til að kenna í framhaldsskóla. Eftir að ég fékk þau sá ég framhaldsskóla auglýsa eftir kennara í hlutastarf í eðlisfræði. Ég sótti um og fékk grænt ljós hjá vinnuveitanda að minnka við mig vinnu hjá þeim til að kenna á móti. Var ég þá mjög ánægður að fá það tækifæri og var mjög metnaðarfullur í kennslunni. Eftir 1-2 annir af kennslu tók forstjórinn mig á tal og sagði að þetta væri ekki að ganga og fannst áhugi minn á kennslu hafa áhrif á störf mín. Ég var eiginlega sammála honum og þá ákváðum við að ég myndi hætta hjá þeim. Ég sótti þá um fullt starf í kennslunni og fékk það og hef ekki hug á því að hætta þar.
Til baka
Fann sig í lögreglunni
Ég var lengi að fá sýn á það hvað mig langaði að verða þegar ég yrði stór, ég taldi mig alltaf vera lakan námsmann og var lengi að fá metnað fyrir námi. Það má segja að mínar leiðir hafi oft verið tilviljunarkenndar, ástæðan fyrir því að ég lauk sjúkraliðanámi var sú að ég var búin að starfa lengi við aðhlynningu og líkaði það ágætlega. Það var ekki fyrr en ég var að horfa til þess að fara í hjúkrunarfræði sem ég sæki um í Lögregluskólanum, bara til þess að „prófa“. Ég hugsa oft um það hversu þakklát ég er fyrir að hafa gert það því það hefur ekki enn komið sá dagur sem ég hef séð eftir því. Í dag er ég með BA próf í lögreglu- og löggæslufræðum og starfa sem varðstjóri.
Síðar komst ég auðvitað að því að ég var aldrei lakur námsmaður heldur skorti mig metnað og áhuga á því sem ég tók mér fyrir hendur, sem kom svo með árunum.
Það hefur alla tíð skipt mig máli að standa mig vel í vinnu, ég er metnaðarfull í því sem ég tek mér fyrir hendur og vil standa mig vel. Ef ég tek starfið sem ég gegni í dag sem dæmi þá krefst það mikillar yfirsýnar, fagleika og samskiptahæfni. Þá finnst mér mikilvægt að hætta aldrei að afla sér þekkingar á því sviði sem maður starfar við og að velja sér góðar fyrirmyndir á þeim starfsvettvangi sem maður starfar á. Að vera lögreglumaður er fyrst og fremst mjög skemmtilegt starf, þó það geti verið mjög krefjandi og við sinnum erfiðum málum. Það sem er mjög mikill kostur við að vera lögreglumaður eru góðir samstarfsfélagar og samheldni. Starfið er fjölbreytt og maður veit aldrei hvað vaktin ber í skauti sér.
Ég tel það skipta höfuð máli að velja sér nám og starfsvettvang sem maður hefur áhuga á og starfa við það sem manni finnst skemmtilegt, því lífið er of stutt fyrir leiðinlega vinnudaga.
Til baka
Ákvað ung að verða hjúkrunarfræðingur
Ég tók snemma ákvörðun um að fara í nám í hjúkrunarfræði. Bæði er mamma
hjúkrunarfræðingur og margir aðrir hjúkrunarfræðingar í kringum mig og það mótað mig í því
að velja þessa starfsgrein. Mig hefur alltaf langað að starfa þar sem ég get gefið af mér til
annara og hjálpað fólki. Það sem heillar mig er bráðveikt og í bráðum aðstæðum sem er
hraðinn og að þurfa að hafa marga bolta á lofti á hverjum tíma auk þess að geta svo
vonandi fylgt fólki eftir til betri heilsu. Ég hef tvisvar gert áhrifamiklar breytingar á mínum
starfsferli. Annars vegar þegar ég var búin að vinna mjög mikið og upplifði að ég var alveg
að brenna út. Til að koma í veg fyrir það ákvað ég að breyta um umhverfi og fara erlendis að
vinna sem hafði verið draumur. Sú ákvörðun gerði það að verkum að ég fann vinnugleðina
aftur. Síðari breytingin átti sér stað þegar ég ákvað að skipta deild eftir 15 ár á sama sviði.
Ég upplifði stöðnun og að vinnan var farin að valda vanlíðan hjá mér. Það að ég hef áhuga á
fólki og að sinna því hefur gert það að verkum að ég á oftast auðvelt með að mynda tengsl
við fólk. Ég er mjög samviskusöm og vil gera allt vel. Hins vegar hefur það líka verið erfitt að
þurfa að sætta mig við það að stundum get ég ekki gert hlutina 100 % Ég held að það hafi
haft mikil áhrif á mig að ég hafa áttað mig á því þegar ég var orðin þreytt að hafa þá skipt um
sérgrein.
Til baka
Á FERÐ OG FLUGI Í NÁTTÚRUNNI
Að loknu verslunarprófi og stúdentspróf af málabraut stefndi ég á dýralæknanám. Ég þurfti að bæta við mig raungreina fögum sem ég gerði áður en ég fór í líffræði. Það var gaman en raungreinar eru alls ekki minn styrkleiki. Eftir eina önn færði ég mig yfir í dönskudeildina. Þar voru bókmenntir og kvikmyndir sem heilluðu mig. Ég var hálf átta vilt en naut mín í þessu grúski og ákvað að sleppa tökunum. Ég fór í áhugasviðspróf og þar skoruðu hugvísindi hæst. Námsráðgjafinn hughreysti mig og sagði að ég mætti alveg læra dönsku og hægt væri að púsla því námi saman við ýmislegt annað þegar ég myndi með tímanum finna rétta átt. Við útskrift var ég komin með fjölskyldu og fannst mér kennarastarfið virka fjölskylduvænt. Kennslufræðin kveikti neista í mér, það er sjúklega skemmtilegt og krefjandi nám. Ég kenndi dönsku í fimm ár í framhaldsskóla, það var skemmtilegt starf og dýrmætur tími. Meðfram kennslunni vann ég ferðaskrifstofu tvö sumur með kennslunni og fór í kjölfarið í leiðsögunám. Þegar ég starfaði sem leiðsögumaður tók ég meirapróf, þar sem ég vildi getað tekið að mér minni hópa og farið í jeppaferðir. Vinkona mín hvatti mig til að sækja um sumarstarf sem flugfreyja en þá var aldursþak þar og hún sagði “núna eða aldrei, þú ert að verða of gömul vinkona”. Ég lét til leiðast og verð alltaf þakklát fyrir það því ég fékk starfið og fastráðningu ári síðar. Ég elska flugið og samstarfsfólk mitt. Í nokkur ár hef ég boðið upp á helgardvöl í samstarfi við hótel á landsbyggðinni en það er blanda af yoga og útivist. Þar hef ég látið draum rætast um að taka jóga út í náttúruna og náð að sameinað jógakennarann og leiðsögumanninn í mér. Ég trúi því að við getum hlaðið okkur orku og vellíðan með jóga og tengingu við náttúruna. Allt það besta býr innra með okkur og með því að stinga okkur í samband við náttúruna og yoga getum við komist í vellíðunar-brunninn okkar. Ég veit það að ég get gert mest gagn þegar mér líður vel og mér líður vel að vinna með fólk. Þá geri ég það. Vinn með fólk. Ég treysti á flæðið og karma. Ég vil gefa áfram það sem hefur hjálpað mér og trúi á að það gefi til baka einhvern tímann á einhvern hátt.
Til baka
Áhugi á hönnun leiddi mig í smíðar
Ég er með stúdentspróf af náttúrufræði- og málabraut og meistarapróf í bæði húsgagna- og húsasmíði og starfa í dag sem smiður. Ég vann ýmis þjónustustörf með menntaskóla og að honum loknum í tvö ár í fiskverkun á meðan ég var að finna út hvað ég vildi læra. Draumurinn minn frá því ég man eftir mér var að verða dýralæknir en á lokaönninni minni í menntaskóla guggna ég á því. Ég var með þá ranghugmynd að ég gæti ekki orðið dýralæknir því það þyrfti að vera svo klár og góður námsmaður. Mér leið ekki vel og var greind með þunglyndi en ég náði að klára skólann.
Það voru búnar að vera ýmsar náms pælingar í gangi á þessum tíma og ég var að skoða nám í arkitektúr erlendis og íþróttaþjálfaranám hérlendis.
Þegar þarna er komið við sögu var ég komin með mikinn áhuga á hönnun á húsgögnum og húsnæði þar sem þarf að nýta vel allt pláss og ég var mikið að fylgjast með hreyfingu sem kallast “Tiny house movement”. Mamma sem vissi hversu tvístígandi ég var stakk upp á að ég prófaði húsgagnasmíði. Þannig myndi ég kynnast því að vinna með mismunandi efni, gat ennþá búið heima, slapp ég við námslán og gat unnið með skólanum. Úr varð og strax á fyrstu önninni vissi ég að þetta væri mín grein og ég bætti við mig húsasmíði sem ég gat tekið samtímis því margir áfangar voru sameiginlegir með brautunum. Mér finnst líklegt að ég hefði orðið frábær dýralæknir en veit í dag að smíðin er það sem á best við mig og ég mun seint missa áhugann á henni. Ég get haldið því fram þar sem starf smiðs er ótrúlega fjölbreytt og krefst þess að ég æfi mig, sæki endurmenntunarnámskeið til að fylgja stöðugri þróun í byggingargeiranum og starfið reynir á bæði líkamann og heilann. Það er því ómögulegt að láta sér leiðast eða staðna nema virkilega reyna það. Tekjumöguleikarnir skipta líka miklu máli og er hægt að hafa það ágætt sem launamaður, enn betra sem verktaki en einnig hægt að stefna hærra og fara út í atvinnurekstur. Með minn námsferil, réttindi og reynslu get ég svo farið í hönnunarnám, verkfræðinám, verkefnastjórnun og margt fleira. Möguleikarnir eru endalausir. Ég er metnaðargjörn og vil vera stolt af því sem ég geri og geta gert sem mest sjálf, þetta er því fullkomið starf fyrir mig.
Til baka
ÚR VERKFRÆÐI Í KENNSLU
Ég lauk meistaranámi í verkfræði frá bandarískum skóla. Eftir það fór ég að vinna hjá stórri verkfræðistofu og tíminn minn þar var nokkuð góður en eftir að ég hóf störf hjá dóttur fyrirtæki verkfræðistofunnar dró úr starfsánægju minni.
Lesa meira
FANN SIG Í LÖGREGLUNNI
Ég var lengi að fá sýn á það hvað mig langaði að verða þegar ég yrði stór, ég taldi mig alltaf vera lakan námsmann og var lengi að fá metnað fyrir námi.
Lesa meira
ÁKVAÐ UNG AÐ VERÐA HJÚKRUNARFRÆÐINGUR
Ég tók snemma ákvörðun um að fara í nám í hjúkrunarfræði. Bæði er mamma hjúkrunarfræðingur og margir aðrir hjúkrunarfræðingar í kringum mig og það mótað mig í því að velja þessa starfsgrein.
Lesa meira
Á FERÐ OG FLUGI Í NÁTTÚRUNNI
Að loknu verslunarprófi og stúdentspróf af málabraut stefndi ég á dýralæknanám í Kaupmannahöfn. Ég þurfti að bæta við mig raungreina fögum sem ég gerði áður en ég fór í líffræði í Hí.
Lesa meira
ÁHUGI Á HÖNNUN LEIDDI MIG Í SMÍÐAR
Ég er með stúdentspróf af náttúrufræði- og málabraut og meistarapróf í bæði húsgagna- og húsasmíði og starfa í dag sem smiður. Ég vann ýmis þjónustustörf með menntaskóla á meðan ég var að finna út hvað ég vildi læra.
Lesa meira
©Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir
Hvað ætlar þú að verða?
-áhugi, ástríða og starfsáhugi
Sævar Helgi Bragason
Sérfræðingur hjá Náttúrufræðistofu Kópavogs og vísindamiðlari.
Vigdís Hafliðadóttir
Tónlistarkona, handritshöfundur og uppistandari.