Kæri þátttakandi

Vorið 2006 tókstu fyrst þátt í rannsókn sem hét Þróun rafrænnar áhugakönnunar fyrir grunn- og framhaldsskólanema. Við höfðum haft samband á um fjögurra ára fresti og erum mjög þakklát fyrir góða þátttöku. Við sendum tölvupóst með þessum upplýsingum á síðasta netfangið sem við fengum frá þér. Þátttakan hefur skilað sér í betri þekkingu á hvaða áhrif starfsáhugi, persónuleiki og markmið, hafa á náms- og starfsval og þróun farsæls starfsferils. Niðurstöðurnar hafa verið birtar í alþjóðlegum vísindaritum og hafa nýst við náms- og starfsráðgjöf og um þær má lesa á þessari vefsíðu okkar.

Við óskum eftir að þú takir þátt aftur nú. Þar sem hér er um langtímarannsókn að ræða og þú hefur tekið þátt áður er sérstaklega mikilvægt fyrir framgang hennar að þú sjáir þér fært að svara.

Sem þakklætisvott færð þú í lokin þínar eigin niðurstöður úr mati á áhuga og markmiðum og hvernig þau hafa þróast í gegnum árin. Einnig verða dregnir út 15 vinningar, gjafakort að upphæð 20.000 krónur hvert. Könnunin samanstendur af nokkrum spurningalistum sem tekur þig um 20-30 mínútur að svara. Þér er að sjálfsögðu heimilt að neita þátttöku.

Slóð sem leiðir þig inn í könnunina var send í tölvupósti. Þar sem um langtímarannsókn er að ræða óskum við eftir kennitölu. Það tryggir þér öruggan og varanlegan aðgang að niðurstöðum þínum úr áhugakönnunni með rafrænum skilríkjum. Kennitala er einnig notuð til tengja svör þín við fyrri svör og bakgrunnsupplýsingar úr stjórnsýsluskrám með aðstoð Hagstofu Íslands. Persónugreinanlegar upplýsingar eru dulkóðaðar og gögnin rekjanleikavarin. Þú átt rétt á að láta eyða öllum upplýsingum um þig hvenær sem þú óskar. Rannsóknin hefur verið borin undir Siðanefnd háskólanna um vísindarannsóknir. Persónuverndarstefnu og nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu rannsóknarinnar og þar getur þú skráð þig inn í gegnum island.is til að fá aðgang að áhugagreiningum þínum í gegnum árin (https://bendill.is).

Með góðri kveðju,
Sif Einarsdóttir,
Prófessor við Háskóla Íslands og ábyrgðarmaður rannsóknar

Hvers vegna að taka þátt?

Ef einhverjar spurningar vakna vinsamlegast hafið samband með því að senda tölvupóst á hlr@hi.is