Eldar í iðrum - áhugi og starfsánægja

Markmið rannsóknarinnar er skilja betur hvaða þættir hafa áhrif á þróun starfsferils hjá fólki og er áherslan á áhuga, persónuleika og lífsgildi. 
 
ruv Viðtal við Dr. Sif Einarsdóttur um rannsóknina í Morgunútvarpi Rásar 2 
Bitid  Viðtal við Dr. Sif Einarsdóttur um rannsóknina í Bítinu á Bylgunni
 

StarfSÁHUGI, LÍFSMARKMIÐ OG PERSÓNULEIKI

 Starfsáhugi  

Starfsáhugi lýsir því sem við höfum gaman af að gera og fellur á  eftirfarandi sex almenn starfssvið
Handverkssvið Þetta svið lýsir þeim sem líkar vel að að vinna með höndunum og beita alls kyns verkfærum, tækjum og tólum. Flest líkamleg störf höfða til þeirra auk starfa sem unnin eru utandyra. Þeim líkar að vera í ævinýralegu umhverfi og útistörf og útivist hvers konar höfðar gjarnan til þeirra.

Vísindasvið Þeir sem falla á þetta áhugasvið hafa gaman af því að leysa vandamál með vísindalegum aðferðum, útreikningum og rannsóknum og beita rökhugsun. Þeir vilja vinna sjálfstætt og í störfum sem krefjast mikillar einbeitingar. Þeir hafa fjölþætt áhugamál og eru gjarnan opnir fyrir nýjum hugmyndum og reynslu.

Listasvið Þeir sem falla á þetta svið hafa mestan áhuga á að vinna að sköpun og tjáningu. Þeim finnst oft mikilvægara að tjá tilfinningar sínar heldur en að nota rökhugsun og kjósa gjarnan að vinna sjálfstætt og vera frumlegir. Þessir einstaklingar fara gjarnan óhefðbundnar leiðir í lífinu og eru opnir fyrir nýjum hugmyndum og reynslu.

Félagssvið Fólk á þessu sviði velur sér störf sem fela í sér mannleg samskipti. Þeir hafa áhuga á að hjálpa öðrum, leiðbeina eða kenna. Samvinna, skipting ábyrgðar og sveigjanleiki í samskiptum skiptir þá helst máli í starfi. Þeir leggja áherslu á að leysa málin með því að ræða þau út frá tilfinningum og samskiptum við aðra.

Athafnasvið
Þeir sem falla á þetta svið hafa áhuga á að ná fram ákveðnum markmiðum, persónulegum eða efnahagslegum. Þeir vilja vinna með öðrum en hafa mestan áhuga á að stjórna og hafa áhrif. Þeir eru gjarnan í viðskiptum, stjórnmálum og í stjórnunarstörfum og vilja vera virkir í athafnalífi. Þeir eru oft tilbúnir til að taka áhættu í starfi og eru miklir keppnismenn.

Skipulagssvið Þetta svið lýsir þeim sem vilja hafa gott skipulag á sinni vinnu. Þeir vilja vinna við skýrt afmörkuð verkefni þar sem hægt er að leita skynsamlegra og hagnýtra lausna á vandamálum. Þeir eru áreiðanlegir, vilja hafa reglu á hlutunum og vinna gjarnan með gögn og skýrslur. Þeir vilja frekar vinna undir stjórn annarra eða þar sem farið er eftir skýrum áætlunum en að stjórna öðrum sjálfir.
Nánari upplýsingar um starfsáhuga er að finna hér: Bendill.is
 

Lífsmarkmið 

Almenn lífsmarkmið eru nátengd gildum og endurspegla hvað skiptir okkur mestu í lífinu. Þau hafa verið flokkuð í sjö breið svið.

 

Tekjur:  Hafa góðar tekjur og búa vel efnahagslega. Samfélag:  Hjálpa fólki styðja og stuðla að velferð annarra. Listsköpun: Stunda listsköpun og ná frama í listum. Menntun:  Fá góðar einkunnir í námi og að ljúka gráðu. Tengsl: Rækta fjölskyldubönd og eiga vinsamleg samskipti við aðra. Skemmtun-reynsla: Upplifa skemmtun og spennandi lífsstíl. Virðing-áhrif: Hafa áhrif í opinberum málum og vera í forsvari fyrir hópa.

Persónuleiki 

Persónuleiki lýsir tilhneigingu fólks til að haga sér með líkum hætti í ólíkum aðstæðum og talað hefur verið um eftirfarandi fimm almenna persónuleikaþætti.
Tilfinningalegur stöðugleiki:  að vera bjartsýn, búa yfir seiglu, sjálfsöryggi og jafnaðargeði. Úthverfa: að vera málglöð, félagslynd og njóta annarra; gjarnan stjórnandi. Víðsýni: að meta nýjar hugmyndir, gildi og hegðun. Samvinnuþýði: að vera sammála og fylgja öðrum frekar en að standa fyrir eigin skoðunum og vali. Samviskusemi: að vera varkár, stundvís, fylgja reglum og vera vinnusöm.

 

Hvernig tengjast áhugi, persónuleiki og lífsmarkmið þróun starfsferils?

Lífsmarkmiðum má líkja við áttavita sem markar stefnuna í ljósi þess hvað við viljum fá út úr lífinu. Áhugi dregur fólk að tilteknum starfssviðum, veitir okkur drifkraft og seiglu til að halda áfram og takast á við hindranir.  Persónuleiki hefur áhrif á hvernig við nálgumst störf okkar.  

 

HELSTU NIÐURSTÖÐUR 

Starfsáhugi

Starfsáhugi er enn að mótast á unglingsárum en er orðinn nokkuð stöðugur um tvítugt og hefur því snemma áhrif á hvert stefnir á starfsferli.  Þróun áhuga er einstaklingsbundinn og í samspili við umhverfið, en að jafnaði eykst áhugi á vísindum og hann minnkar á lista og félagssviði frá unglingsárum fram til þrítugs. Flest velja sér smám saman, frá unglingsaldri fram á fullorðinsár, nám og störf sem falla betur að eigin áhugasviðum.  Þau sem velja sér nám í samræmi við eigin áhuga eru líklegri til að ljúka námi.  Þau sem velja sér starf út frá áhuga eru ánægðari í starfi en aðrir og með hærri tekjur.  Ungt fólk tekur stjórn á eigin starfsferli og breytir um nám eða starf ef áhugi er ekki fyrir hendi frekar en að áhugi mótist af starfinu. LífsmarkmiðLífsmarkmið eru í mikilli mótun á unglinsárum en orðin stöðugri undir þrítugt. Lífsmarkmiðum fólks fækkar eitthvað fram á þrítugsaldur, velja þarf og hafna þegar lífsverkefnum fjölgar. Að jafnaði aukast samfélags- og tengslamarkmið en áhersla minnkar á menntun, sem margir hafa lokið, og á listsköpun, skemmtun og markmið tengd efnahag og áhrifum.

Persónuleiki

Persónuleiki verður stöðugri með árunum og er jafn stöðugur og áhugi. Við verðum flest samviskusamari, umburðarlyndari og víðsýnni þegar tekist er á við fullorðinshlutverk en aðeins minna félagslynd.  Tilfinningalegur stöðugleiki, samviskusemi og úthverfa auka ánægju og árangur í starfi Samviskusemin hjálpar okkur að vinna að eigin lífsmarkmiðum hver sem þau eru. Þrátt fyrir að áhugi, persónuleiki og lífsmarkmið séu orðin nokkuð stöðug milli tvítugs og þrítugs geta þau líka breyst yfir æviskeiðið.
 
Frekari niðurstöður má finna hér í fræðigreinum sem hafa verið birtar.