Afgreiðsla og þjónusta:
Þessi kvarði endurspeglar áhuga á að starfa við þjónustu t.d. í ferða- og veitingageiranum og við afgreiðslu aðallega við viðskiptavini á hinum almenna markaði. Hann inniheldur til dæmis eftifarandi atriði og störf: selja bækur og ritföng, bera fram veitingar fyrir farþega í flugi og afgreiðslumaður í verslun.
Akstur og vélar:
Þessi kvarði inniheldur atriði s.s. aka farþegum í leigubíl, stjórnandi á jarðvinnutæki, tækjamaður við fiskfrystitæki. Þeir sem fá hátt á þessum kvarða hafa gaman af að vinna við vélar, viðgerðir þeirra, akstur og annað sem felur í sér notkun, hönnun og viðgerðir á vélbúnaði. Vegna þess hvernig fólk svarar atriðunum í þessum kvarða að jafnaði er líklegt að mælast með meðaláhuga á þessu sviði.
Björgun og löggæsla:
Atriði sem tengjast löggæslu annars vegar og björgunarstörfum hins vegar mynda nokkuð skýran klasa s.s. aðstoða fólk í sjávarháska, handtaka fólk grunað um glæp, slökkviliðsmaður. Þeir sem eru háir á þessu sviði hafa áhuga á að vinna við almenna löggæslu og eftirlit, rannsóknir á sakamálum og björgunarstörf ýmiss konar sem oftast eru unnin í sjálfboðavinnu hérlendis en teljast ekki til hefðbundinna launaðra starfsstétta.
Byggingagreinar:
Þessi kvarði inniheldur atriði sem endurspegla fjölbreytt svið iðnaðar sem tengjast fyrst og fremst mannvirkjagerð. Þeir sem eru háir á þessum kvarða eru líklegir til að finna sig í störfum þar sem unnið er með áþreifanlega hluti eins og byggingar og viðgerðir. Dæmi um atriði og störf sem kvarðinn inniheldur eru: múra veggi og gólf, trésmiður, hellulagningarmaður. Vegna þess hvernig fólk svarar atriðunum í þessum kvarða að jafnaði er líklegt að mælast með meðaláhuga á þessu sviði.
Félags- og menntavísindi:
Þetta svið lýsir áhuga á fræðastörfum og gerir kröfu um áhuga á sviði ritunar og greiningar en viðfangsefnið afmarkar sviðið við samfélagsleg málefni og menntun. Þessi kvarði inniheldur athafnir og störf s.s. gera rannsóknir á högum nýbúa, túlka og skýra niðurstöður skoðanakannana, tómstunda- og félagsmálafræðingur, móta og þróa stefnu í skóla- og menntamálum.
Fjármál:
Kvarðinn samanstendur af athöfnum og störfum sem eru bæði gamalgróin og tilheyra vaxandi sviði í viðskiptageiranum hérlendis. Því inniheldur kvarðinn atriði eins og endurskoðandi, gjaldkeri á skrifstofu og gera fjárhagsáætlanir fyrir fyrirtæki. Þeir sem falla á þetta svið geta þrifist á nokkuð breiðum vettvangi og fundið störf víða, bæði í viðskiptalífinu og fjarmálageiranum auk opinbera geirans sem sinnir fjársýslu af ýmsu tagi.
Fjölmiðlar:
Þessi kvarði inniheldur atriði eins og skrifa fréttir fyrir dagblöð, sjá um hljóðupptökur í útvarpi, sjónvarpi eða kvikmynd, plötusnúður. Þeir sem eru háir á þessu sviði gætu bæði haft áhuga á að búa til efni fyrir fjölmiðla og sjá um tæknilegan þátt útsendinga og upptöku.
Hannyrðir og hönnun:
Kvarði sem endurspeglar áhuga á hagnýtri hönnun og hannyrðum sem sumar hverjar eru rótgrónar í íslenskri menningu og handverki. Kvarðinn samanstendur af atriðum s.s. hanna myndir eða mynstur á föt, blómaskreytingarmaður, handmenntakennari.
Heilbrigðisþjónusta:
Annað svið sem fellur undir þjónustugeirana eru heilbrigðismál. Þar sem um nokkuð víðtækt svið er að ræða var þessum flokki skipt í tvennt, annars vegar fræðilega hlutann sem lýst er hér að neðan (heilbrigðis- og lífvísindi) og hins vegar þann þátt sem snýr mest að þeim er þiggja þjónustuna. Þessi kvarði inniheldur athafnir og störf s.s. aðstoða tannlækni við tannviðgerðir, veita upplýsingar og ráðleggingar um lyf, sjúkraliði, læknir. Þeir sem falla á þetta svið hafa áhuga á að starfa á mjög svo víðfeðmu sviði heilbrigðismála sem felur í sér störf sem krefjast bæði styttri og lengri menntunar.
Heilbrigðis- og lífvísindi:
Þessi kvarði inniheldur athafnir og störf sem tengjast rannsóknum og hagnýtingu á heilbrigðissviði og á sviði lífvísinda sem hefur verið vaxandi fræðigrein undanfarin ár. Dæmi um atriði sem kvarðinn inniheldur eru: Gera erfðafræðilegar rannsóknir á sjúkdómum, rannsaka plöntur, dýr eða frumur í smásjá, lyfjafræðingur.
Hugvísindi:
Þessi kvarði inniheldur athafnir og störf s.s. greina merkingu skáldsagna og annarra bókmennta, kenna erlend tungumál í framhaldsskóla, íslenskufræðingur, sagnfræðingur. Þessar greinar tilheyra hugvísindum eins og þau eru skilgreind í háskólasamfélaginu að mestu leyti. Þær eiga það sammerkt að vera grundaðar í tungumálinu og fjalla um þau svið mannlegrar tilveru sem tilheyra t.d. heimspeki, sagnfræði og bókmenntafræðum ásamt fleiri skyldum greinum.
Íþróttir og heilsa:
Kvarði sem inniheldur atriði eins og kenna íþróttir í skóla, veita fólki ráðgjöf um mataræði, og leiðbeinandi í heilsurækt. Þetta eru athafnir og störf sem finna má nokkuð víða í samfélaginu en tengjast öll líkamsástandi eða iðkun heilbrigðra lífshátta og heilsuræktar. Áhugi þeirra sem falla á þetta svið beinist að störfum sem víða er að finna í okkar samfélagi og verða æ fjölbreyttari og umfangsmeiri.
Kennsla:
Atriði sem snúa að uppeldi og leiðsögn barna og unglinga myndaði mjög skýran klasa. Þetta eru athafnir eins og kenna grunnskólabörnum, leiðbeina börnum og unglingum við tómstundastarf og þroskaþjálfi. Þeir sem eru háir á þessu sviði hafa áhuga á að starfa með börnum og unglingum á fjölbreyttum starfsvettvangi, störfum sem fer sífellt fjölgandi í nútímasamfélagi.
Lagerstörf og sendingar:
Þessi kvarði samanstendur af athöfnum og störfum sem tengjast lagerstörfum og sendingum af ýmsu tagi eins og t.d. flokka bréf og böggla vegna póstsendinga, halda skrá yfir framleiðslu, innkaup eða birgðir fyrirtækja, lagerstjóri.
Lög:
Þessi kvarði er líklega sá einsleitasti sem fram hefur komið í Bendli. Hann inniheldur einungis atriði sem snúa að lögfræðistörfum s.s. vinna að lögfræðilegum álitsgerðum, héraðsdómari og veita fyrirtækjum ráðgjöf um lögfræðileg vandamál. Vegna þess hvernig fólk svarar atriðunum í þessum kvarða að jafnaði er líklegt að mælast með meðaláhuga á þessu sviði.
Mannauðsstjórnun:
Kvarði sem samanstendur af atriðum s.s. móta og framkvæma starfsmannastefnu innan fyrirtækja. Þjálfa stjórnendur fyrirtækja/ stofnana í samskiptum, atvinnumálaráðgjafi. Kvarðinn endurspeglar áhuga á að vinna með fólki, stjórna og þróa starfsumhverfi og fræðslu í fyrirtækjum og stofnunum.
Náttúruvísindi:
Kvarðinn samanstendur af störfum og athöfnum sem tengjast rannsóknum á náttúrunni í víðum skilningi s.s. gera veðurathuganir og veðurspár, jarðfræðingur og skoða eiginleika frumeinda. Hann endurspeglar áhuga á að starfa við rannsóknir, fræðistörf og hagnýtingu þekkingar á sviði náttúrufræða og svokallaðra raunvísinda fyrst og fremst.
Persónuleg þjónusta:
Þessi kvarði inniheldur atriði sem tengjast störfum sem fela í sér aðstoð fólk við ýmis hagnýt úrlausnaratriði. Hann inniheldur störf eins og flugfreyja, móttökuritari og snyrtifræðingur sem ná yfir nokkuð vítt svið en skera sig frá almennri afgreiðslu þar sem huga þarf betur að þörfum og líðan.
Raf- og vélvirkjun:
Þessi kvarði inniheldur atriði eins og t.d. leggja raflagnir í hús, bifvélavirki og vélstjóri. Þeir sem fá hátt á þessum kvarða hafa gaman af að vinna með tæki og tól, gera við og lagfæra. Vegna þess hvernig fólk svarar atriðunum í þessum kvarða að jafnaði er líklegt að mælast með meðaláhuga á þessu sviði.
Ráðgjöf og meðferð:
Þessi kvarði endurspeglar áhuga einstaklinga á að vinna með fólki og aðstoða við persónuleg og félagsleg vandamál. Hann samanstendur af athöfnum og störfum eins og aðstoða fólk sem býr við félagslega vandamál, aðstoða nemendur við náms- og starfsval, sálfræðingur. Þetta er svið sem krefst nokkurrar menntunar og tengist töluvert félagsvísindum og einnig heilbrigðisþjónustu að nokkru leyti.
Ræktun og búskapur:
Þessi kvarði samanstendur af athöfnum og störfum á sviði landbúnaðar, garðyrkju og gróðurræktar fyrst og fremst. Hann inniheldur m.a. atriði eins og rækta plöntur og gróðursetja tré, sjá um kýr kindur eða hesta og bóndi. Þeir sem hafa áhuga á störfum á þessu sviði una sér best úti í náttúrinni við nytjun hennar eða fegrun.
Sala:
Kvarðinn inniheldur atriði sem lýsa störfum þeirra sem fást við að fá neytendur til að kaupa vöru og þjónustu á ýmsum sviðum s.s. sýna fólki og selja íbúðarhúsnæði, afgreiðslumaður í verslun, selja tryggingar. Vegna þess hvernig fólk svarar atriðunum í þessum kvarða að jafnaði er líklegt að mælast með meðaláhuga á þessu sviði.
Sjávarútvegur:
Ýmis störf og athafnir sem tengjast helstu frumvinnslugrein þjóðarinnar falla í þennan kvarða, s.s. fiskeldisfræðingur, háseti og sjá um veiðarfæri um borð í skipi. Kvarðinn lýsir áhuga á sjávarútvegi og þeim fjölbreyttu störfum sem þar bjóðast til sjós og lands. Vegna þess hvernig fólk svarar atriðunum í þessum kvarða að jafnaði er líklegt að mælast með meðaláhuga á þessu sviði.
Sjónlistir:
Þessi kvarði samanstendur af athöfnum og störfum s.s. hanna auglýsingar og skilti, hanna íbúðarhús og teikna upp, ljósmyndari, iðnhönnuður, sem spanna nokkuð vítt svið í listageiranum. Þeir sem eru háir á þessu sviði hafa áhuga á að vinna við sköpun myndverka eða hönnun hluta fyrst og fremst.
Skapandi skrif:
Kvarði sem endurspeglar áhuga fólks á því að vinna með og tjá sig í rituðu máli. Hann inniheldur til dæmis eftirfarandi atriði og störf: skrifa fréttir fyrir dagblöð, þýða texta og eða skjöl á íslensku eða erlend mál og rithöfundur.
Skrifstofustörf:
Þetta er vel þekktur kvarði úr erlendum rannsóknum sem inniheldur störf eins og ritari framkvæmdastjóra, símvörður og athafnir eins og taka við og skrá greiðslur viðskiptavina í tölvu, skrifa og setja upp bréf í tölvu. Þessi störf fela í sér pappírsvinnu, flokkun, skráningu og ritun ásamt móttöku og upplýsingagjöf hjá stofnunum og fyrirtækjum á flestum sviðum.
Stjórnmál:
Þessi kvarði sem inniheldur atriði s.s. alþingismaður, stjórnmálafræðingur og formaður hagsmunasamtaka. Hann endurspeglar áhuga á að taka þátt í samfélagslegri stjórnun og stefnumótun.
Stærðfræði:
Atriði sem beinast að því að beita stærðfræði og útreikningum fræðilega og við úrlausn hagnýtra verkefna s.s. setja jöfnu upp í myndriti, tölfræðingur mynduðu nokkuð afgerandi klasa. Þessi kvarði lýsir áhuga á að starfa við stærðfræðileg viðfangsefni og lausn þeirra á ýmsum sviðum þar sem þess gerist þörf.
Sviðlistir:
Athafnir og störf sem falla undir þær listgreinar sem kalla á að listamaðurinn stígi á svið voru teknar saman í einn kvarða. Þar er að finna athafnir og störf eins og syngja í hljómsveit eða kór, tónlistarkennari, leikari. Þetta svið nær yfir tónlist, leiklist og dans, þannig að þeir sem eru háir á þessum kvarða hafa yfirleitt hug á að starfa eða taka þátt í sýningum sem fela annaðhvort eða bæði í sér leikræna tjáningu og tónlistarflutning.
Tölvur:
Þessi kvarði inniheldur atriði s.s. setja upp og tengja tölvubúnað, aðstoða fólk við að leysa úr tölvuvanda, hanna og setja upp vefsíður og tölvunarfræðingur. Þessar athafnir endurspegla bæði áhuga á að vinna við tölvubúnað, hönnun í tölvum, forritun og fræðilega nálgun að tölvutækninni og notkun hennar.
Verk- og tæknifræði:
Valin voru saman athafnir og störf s.s. hanna og teikna rafeindabúnað fyrir tölvur, meta og reikna burðarþol húsa, vélaverkfræðingur sem eiga það sameiginlegt að fela í sér störf sem falla undir verk og tæknifræði. Þeir sem hafa áhuga á þessu sviði starfa í ýmsum geirum s.s. bygginga-, véla- eða rafmagns-/einda- þar sem hagnýta þarf þekkingu á tækni- og verkfræðum.
Verkleg þjónusta:
Þessi kvarði samanstendur af athöfnum og störfum sem tengjast verklegri þjónustu á ýmsum sviðum s.s. þrífa og undirbúa herbergi fyrir hótelgesti, starfsmaður á elliheimili, sorphreinsunarmaður. Vegna þess hvernig fólk svarar atriðunum í þessum kvarða að jafnaði er líklegt að mælast með meðaláhuga á þessu sviði.
Viðhald og smíðar:
Þessi kvarði inniheldur atriði sem snúa að smíðum, viðhaldi og umsjón húsnæðis t.d. er húsvarðarstarfið í þessum kvarða. Hér er um fínlegri vinnu að ræða en í flestum byggingagreinum s.s. smíða húsgögn, mála að innan og utan sem að fólk sinnir jafnvel einnig í tómstundum.
Viðskipti og rekstur:
Þessi kvarði inniheldur atriði eins og stjórna og reka eigið fyrirtæki, stjórna banka eða sparisjóði, markaðsstjóri. Ef einstaklingur er hár á þessum kvarða lýsir það áhuga á að hafa frumkvæði og bera ábyrgð á rekstri fyrirtækis og starfa sem athafnamaður eða -kona í viðskiptalífinu.
Vinnsla sjávarafurða:
Þessi kvarði inniheldur atriði sem tengjast meðhöndlun, vinnslu og pökkun á helstu útflutningsvöru Íslands. Dæmi um atriði eru: hreinsa og pilla rækjur á færibandi, flokka og pakka fiski, verkstjóri í frystihúsi. Vegna þess hvernig fólk svarar atriðunum í þessum kvarða að jafnaði er líklegt að mælast með meðaláhuga á þessu sviði.